Það er andlát hins 73 ára Ray DeMonia sem um ræðir. Hann lést af aukaverkunum eftir hjartaáfall eftir að sjúkrahúsið í heimabæ hans hafði vísað honum frá því þar var ekkert pláss vegna hins mikla fjölda COVID-19 sjúklinga sem þar lágu. Sjúkrahúsið hafði samband við 42 önnur sjúkrahús, í þremur ríkjum, til að kanna hvort þau gætu tekið við DeMonia en gjörgæsludeildir þeirra allra voru fullar af COVID-19 sjúklingum.
The Independent segir að að lokum hafi tekist að finna laust gjörgæslurými fyrir DeMonia í Mississippi, í rúmlega 320 kílómetra fjarlægð. DeMonia var fluttur þangað en lést þar. Hann var sjálfur bólusettur gegn kórónuveirunni.
Í dánartilkynningunni frá fjölskyldunni hvatti hún óbólusett fólk til láta bólusetja sig svo það losnaði um rými fyrir sjúklinga sem eru ekki með COVID-19.
Alabama er eitt þeirra ríkja þar sem sjúkrahúsinnlögnum af völdum COVID-19 hefur fjölgað mest. Svo virðist sem toppnum sé að verða náð þar en vandinn er samt sem áður ærinn því mun fleiri þarfnast aðhlynningar á gjörgæsludeildum en rými er fyrir. Þetta hefur The Independent eftir Scott Harris, yfirmanni heilbrigðiskerfis ríkisins. Washington Post segir að á sunnudaginn hafi 2.800 COVID-19 sjúklingar legið á sjúkrahúsum í Alabama, þar af 768 á gjörgæsludeildum.
Kringumstæðurnar í kringum andlát DeMonia hafa vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og fengið mikla fjölmiðlaumfjöllun