Verðið á litecoin hækkaði um tæplega 30% í kjölfar „fréttarinnar“ og fór í 225 dollara. Verðið lækkaði síðan niður í 180 dollara eftir að Walmart hafði tilkynnt að „fréttin“ ætti ekki við rök að styðjast.
„Fréttin“ var send út í gegnum GlobeNewswire en fyrirtækið sendir út fréttatilkynningar. Í tilkynningunni kom fram að Walmart myndi byrja að taka við greiðslum í rafmynt og að fyrirtækið hefði gert stóran samning við litecoin um að frá og með 1. október yrði tekið við rafmyntinni í netverslunum Walmart.
Randy Hargrove, talsmaður Walmart, sagði í gær að fyrirtækið hefði rætt við GlobeNewswire um hvernig stæði á því að fréttatilkynningin var send út en niðurstaða liggur ekki fyrir.
GlobeNewswire sendi frá sér tilkynningu í kjölfarið þar sem blaðamenn, fjölmiðlar og aðrir viðskiptavinir voru beðnir um að taka ekki mark á tilkynningunni.
Walmart er stærsta verslunarkeðja heims en velta fyrirtækisins var 559 milljarðar dollara á síðasta ári.