Nýlega varð mikil umræða í Danmörku um ákvörðun skólastjóra framhaldsskóla í Vejle um að banna nemendum að mæta í skólann ef þeir væru klæddir í peysur eða boli sem næðu ekki alveg að hylja magann. Úr urðu töluverð mótmæli og á endanum greip skólastjórnin inn í málið og ógilti ákvörðun skólastjórans.
Nú stefnir í álíka heitar umræður um ákvörðun stjórnenda SDU Fitness um að banna æfingar ef iðkendur eru aðeins í íþróttabrjóstahaldara.
Jótlandspósturinn hefur eftir Nivi Meyer, sem stendur fyrir undirskriftarsöfnun gegn þessari ákvörðun, að henni finnist þetta alveg fáránlegt. Hér sé um gamaldags viðhorf til kvenna að ræða, að ekki megi æfa í íþróttabrjóstahaldara og sýna magann á sér.
Í skjali, sem hefur verið birt á Facebook, er bannið skýrt með því að það snúist um hreinlæti, persónuleg mörk og þess að taka tillit til mismunandi menningar.
Þingmenn Danska þjóðarflokksins og Venstre gagnrýna bannið.