Það voru danska smitsjúkdómastofnunin, Statens Serum Institut, og Álaborgarháskóli sem stóðu að rannsókninni. Skýrt er frá henni á heimasíðu Statens Serum Institut.
Fram kemur að líkurnar á að óbólusettir þurfi að leggjast inn á sjúkrahús vegna kórónuveirusmits séu 201% meiri ef þeir eru smitaðir af Deltaafbrigðinu en ef þeir eru smitaðir af Alfaafbrigðinu.
Deltaafbrigðið, sem uppgötvaðist fyrst á Indlandi í desember á síðasta ári, er það afbrigði kórónuveirunnar sem ræður lögum og lofum í Danmörku en nær öll smit sem greinast eru af völdum Deltaafbrigðisins. Áður var það Alfaafbrigðið, áður þekkt sem breska afbrigðið, sem réði ríkjum.
Rannsóknin hefur verið birt í læknaritinu The Lancet.
Á heimasíðu Statens Serum Institut kemur fram að erlendar rannsóknir hafi sýnt svipaðar niðurstöður. Samkvæmt breskri rannsókn eru líkurnar á sjúkrahúsinnlögn óbólusettra 132% meiri ef þeir smitast af Deltaafbrigðinu og kanadísk rannsókn sýndi 108% meiri líkur. Niðurstöður norskrar rannsóknar voru á hinn bóginn að ekki væru meiri líkur á að óbólusettir þurfi að leggjast inn á sjúkrahús ef þeir smitast af Deltaafbrigðinu.
Tyra Grove Krause, fagstjóri hjá Statens Serum Institut, segir að niðurstöðurnar sýni mikilvægi þess að fólk láti bólusetja sig gegn kórónuveirunni.