„Það er kominn tími til að fólk líti á bólusetningu sem nauðsyn til að geta lifað góðu og heilbrigðu lífi,“ sagði Bill de Blasio, borgarstjóri, á þriðjudaginn þegar hann kynnti nýju reglurnar.
Bandaríkin takast nú á við nýja bylgju kórónuveirunnar eins og fleiri ríki gera einnig. Það er hið smitandi Deltaafbrigði sem fer mikinn þar og víðar um heiminn.
60% íbúa í New York hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn kórónuveirunni en í ákveðnum borgarhlutum er hlutfallið undir 60%.
Reiknað er með andstöðu og óánægju með kröfuna um að fólk þurfi að vera bólusett til að fá aðgang að hinum ýmsu stöðum. Svipaðar kröfur í Frakklandi hafi orðið tilefni mótmæla og átaka milli lögreglu og mótmælenda.
Bandaríska alríkisstjórnin og yfirvöld í sumum ríkjum hafa beðið opinbera starfsmenn um að láta bólusetja sig. Það sama hefur verið gert á sumum sjúkrahúsum og háskólum.
Á þriðjudaginn tilkynnti matvælafyrirtækið Tyson Foods að starfsmenn þess verði að láta bólusetja sig og er þar með stærsta bandaríska fyrirtækið sem hefur gert það að skilyrði til þessa.