Tyra Grove Krause, hjá dönsku smitsjúkdómastofnuninni SSI, segir að ekki náist að bólusetja nægilega marga til að hjarðónæmi náist. „Ef bóluefnin virkuðu 100% gegn þeim afbrigðum sem nú herja og við gætum bólusetta alla 12 ára og eldri þá gætum við sagt að við værum með hjarðónæmi gagnvart Deltaafbrigðinu en því miður þá er raunveruleikinn ekki svona, við náum þessu ekki,“ hefur B.T. eftir henni.
Ástæðan fyrir þessu er meðal annars að Deltaafbrigðið herjar á Danmörku og er hið ráðandi afbrigði þessa dagana.
Fyrir nokkrum dögum sagði Viggo Andreasen, lektor í stærðfræði við háskólann í Hróarskeldu, að hjarðónæmi náist ekki gegn Deltaafbrigðinu þótt 85% þjóðarinnar verði bólusett, afbrigðið er einfaldlega of smitandi til þess. Á hinn bóginn getur svo mikil bólusetning komið í veg fyrir stóra faraldra.
72,2% Dana hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni og 57,1% hafa lokið bólusetningu.