Þetta kom fram fyrir undirrétti í Kaupmannahöfn á mánudaginn þegar krafa lögreglunnar um gæsluvarðhald yfir 24 ára manni var tekin fyrir. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald og er sjöundi meðlimur smyglgengisins sem er úrskurðaður í gæsluvarðhald. Ekstra Bladet skýrir frá þessu.
Blaðið segir að maðurinn sé grunaður um að hafa farið tvær ferðir til Svíþjóðar með að minnsta kosti 30 kíló af hassi í hvort sinn. Í félagi við annan mann hitti hann sænskan kaupanda hassins í Svíþjóð og afhenti honum það og fékk greitt fyrir í reiðufé. Talsmaður lögreglunnar staðfesti að lögreglan telji að mennirnir hafi verið plataðir í tengslum við afhendingu á annarri sendingunni og hafi fengið verðlausan pappír í stað peningaseðla.