„Við erum dönskum vinum okkar þakklát fyrir stuðning þeirra við að sigrast á þessari alheims áskorun,“ skrifaði Volodymyr Zelenskij, forseti Úkraínu, á Twitter.
Ole Egberg Mikkelsen, sendiherra Dana í Úkraínu, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að löndin séu nánir bandamenn, einnig í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Þessir 500.000 skammtar komi á mikilvægum tíma þar sem skipti miklu máli að bólusetja eins marga og hægt er fyrir haustið.
Um tvær milljónir Úkraínumanna hafa lokið bólusetningu en um 41 milljón býr í landinu. Það svarar því til að tæplega 5% hafi lokið bólusetningu. Í Danmörku hefur rúmlega helmingur þjóðarinnar lokið bólusetningu.