„Aðalástæðan fyrir þessum nýju ráðleggingum okkar er að þetta myndi hafa gríðarleg áhrif á heildarfjölda inflúensutilfella meðal allra landsmanna,“ hefur Politiken eftir Helene Probst, hjá embætti landlæknis. Hún sagði einnig að bólusetning myndi veita börnunum sjálfum vernd, systkinum þeirra og allri fjölskyldunni.
Yfirleitt er mælt með bólusetningu gegn inflúensu ef einstaklingurinn sjálfur hefur gagn af því en Probst sagði að eftir tvö inflúensutímabil þar sem sóttvarnaaðgerðir voru í gildi hafi nær engin tilfelli inflúensu komið upp og því megi reikna með að hún leggist þyngra á fólk í vetur.
Landlæknisembættið segir að það séu aðallega börn sem dreifa inflúensunni vegna þess að þau smitast oftar, senda frá sér meira magn af veirunni og eiga erfitt með að fylgja leiðbeiningum um hvernig er hægt að draga úr smiti.
Samtök danskra barnalækna styðja þessa tillögu landlæknisembættisins og sagði Marie-Louise von Linstow, formaður samtakanna, hana vera „skynsamlega og eðlilega“.