Sky News hefur eftir talsmanni villidýrastofnunar Kaliforníu að móðirin hafi verið inni við þegar ljónið réðst á drenginn. „Hún er sannkölluð hetja. Hún hljóp út og byrjaði að kýla ljónið með berum höndum og náði því af syni sínum,“ hefur Sky News eftir Patrick Foy, hjá villidýrastofnuninni.
Drengurinn var fluttur á sjúkrahús en hann hlaut alvarlega áverka á höfði og efri hluta líkamans en ástand hans er stöðugt. Hann liggur á sjúkrahúsi í Los Angeles.
Veiðieftirlitsmaður var strax sendur á vettvang og fann hann ljónið fljótlega í runnum nærri vettvangi og var það í vígaham og var það því skotið.
DNA-rannsókn leiddi í ljós að ljónið sem var drepið var ljónið sem réðst á drenginn. Annað fjallaljón, sem sást á svipuðum slóðum, var svæft og flutt langt í burtu frá mannabyggð.