„Við höfum séð þróunina síðasta hálfa annað árið með sífellt meira smitandi afbrigði. Börn og ungmenni, sem eru ekki bólusett, eru samfélagshópur sem getur viðhaldið smitinu og smitað aðra. Til dæmis fólk með lélegt ónæmiskerfi,“ hefur Danska ríkisútvarpið eftir Petersen.
Hann viðraði þessa hugmynd sína nýlega í grein í vísindaritinu International Journal of Infectious Diseases ásamt starfsbróður sínum frá Singapore. „Ef við viljum virkilega hafa stjórn á faraldrinum næstu árin þá teljum við að við neyðumst til að bólusetja börn niður í tveggja ára aldur. Að þetta verði eðlilegur hluti af bólusetningum barna,“ sagði hann.