Nýlega var efnt til samkeppni um nöfn á ungana og urðu nöfnin Astra og Zeneca, sem vísa auðvitað í bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni, hlutskörpust. Ekki var þó full sátt með nöfnin og voru margir mjög ósáttir við þau en ekki var hróflað við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.
Lítið er um storka í Danmörku og því er vel fylgst með þeim fáu pörum sem koma til landsins á vorin og verpa. Einna best er fylgst með parinu sem kemur árlega til Smedager og hreiðrar um sig í sama hreiðrinu ár eftir ár. Vefmyndavél er við hreiðrið og fylgjast margir með daglegu lífi storkanna.
Ekstra Bladet hefur eftir Jess Frederiksen, formanni félagsins storkene.dk, að hvarf unganna hafi uppgötvast seinnipartinn á föstudaginn. „Annar var með gps-sendi og við fengum merki frá honum. Skyndilega sáum við að eitthvað mikið var að. Síðdegis í gær (föstudag, innsk. blaðamanns) sáum við að merkjasendingarnar komu frá skítatanki,“ sagði hann.
Þá vissu félagsmenn að eitthvað var að. „Í morgun fundum við storkinn og systur hans, sem hafði fylgt honum niður í skítatankinn. Þau byrjuðu að fljúga fyrir þremur-fjórum vikum og hefðu flogið suður á bóginn fljótlega,“ sagði Frederiksen.
Tíu storkaungar komu í heiminn í Danmörku í vor og því drapst fimmtungur þeirra þegar Astra og Zeneca flugu ofan í skítatankinn.