Þeir komust að því að ekki sé útilokað að sögurnar séu sannar. LiveScience skýrir frá þessu. Rannsóknin hefur verið birt í tímaritinu Arctic. Í niðurstöðum hennar segja vísindamennirnir að það sé kannski bara tímaspursmál hvenær þeir muni sjá ísbjörn nota stein við veiðar.
Vísindamennirnir köfuðu ofan í frásagnir Inúíta um ísbirni sem kasta grjóti og stórum klakastykkjum en þær ná allt aftur á síðari helming átjándu aldar. Í lýsingu Inúíta frá 1882 lýsir hann því hvernig ísbjörn „tók stórt klakastykki í hrammana, reisti sig upp á afturfæturna og kastaði klakastykkinu af miklu afli í höfuð hálffullorðins rostungs“.
Vísindamennirnir benda einnig á að dansk-norski presturinn og trúboðinn Otto Fabricius hafi í bók sinni „Fauna Groenlandica“ frá 1780 lýst því hvernig ísbirnir tóku upp stór klakastykki og köstuðu í höfuð rostunga. Segja þeir að það sé alls ekki útilokað að ísbirnir, sem lifa frjálsir í náttúrunni, geti lært að nota verkfæri. Þeir benda á að ísbjörninn GoGo, sem er í dýragarði í Japan, hafi sjálfur fundið út aðferð til að ná í kjöt sem gæslufólk hans hengdi upp í þriggja metra hæð. Hann notar tveggja metra langa trjágrein til að ná kjötinu.