The Guardian skýrir frá þessu. Haft er eftir Andrew Patterson, varaforstjóra matvælaáætlunar SÞ, að SÞ eigi nú 20.000 tonn af mat í Afganistan og 7.000 tonn séu á leiðinni en það vanti 54.000 tonn til að koma þjóðinni í gegnum næstu mánuði, til áramóta. „En við verðum hugsanlega uppiskroppa með mat í september,“ sagði hann.
Takmarkanir á flugi til Afganistan gera að verkum að hjálparsamtök eiga í erfiðleikum með að koma mat og lyfjum til landsins.
Patterson sagði að um 18,5 milljónir Afgana, eða um helmingur þjóðarinnar, sé háður matvælaaðstoð erlendis frá. Hann sagðist reikna með að á næstu mánuðum hækki talan enn frekar og fari í 20 milljónir.
„Veturinn nálgast og við förum inn í árstíma þar sem matarskortur er algengur og vegir eru ófærir vegna snjóa í Afganistan,“ sagði hann.
Landið glímdi við matvælaskort áður en Talibanar tóku völdin en þurrkar hafa herjað á landið árum saman. SÞ áætla að 40% af uppskeru landsmanna hafi eyðilagst í ár vegna þurrka og heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur ekki bætt ástandið.