Í kjölfar tilkynningar Heunicke fjallaði Ekstra Bladet um áhrif bóluefnanna og hversu góða vernd þau veita. Fram kemur að samkvæmt nýlegri samantekt smitsjúkdómastofnunar landsins, SSI, hafi 2.097 sýni úr bólusettu fólki, sem hafði smitast af veirunni, verið rannsökuð. Af þeim höfðu 693 smitast af Alfaafbrigði veirunnar og 1.404 af Deltaafbrigðinu. Af þessum hópi þurftu 90 að leggjast inn á sjúkrahús eða 4%. Af þessu dregur SSI þá ályktun að bóluefnið frá Pfizer/BioNTech veiti 86% vörn gegn Alfaafbrigðinu og að bóluefnið frá Moderna veiti 97% vörn gegn því. Hvað varðar Deltaafbrigðið veitir Pfizer/BioNTech 94% vörn og Moderna 97%. Gögnin, sem byggt er á, ná yfir tímabilið frá 1. mars til 3. ágúst.