„Ekkert benti til annars en að um hreint slys væri að ræða,“ sagði David Arnette, landvörður í samtali við Crime Watch Daily og sagði að bátur Mike hefði fundist nærri þeim stað þar sem hann var vanur að sjósetja hann og bíllinn hans var þar nærri. Leitarmenn leituðu hans í margar klukkustundir og var besti vinur hans, Brian Winchester, í fararbroddi leitarmanna. Þeir vinirnir voru vanir að fara saman á andaveiðar og því gat Brian bent á fjölda staða sem Mike gæti hafa farið á. En hvorki tangur né tetur fannst af honum. Því var gengið út frá því að hann hefði drukknað og að krókódílar hefðu étið líkið.
Eftir sátu eiginkona hans, Denise, og litla dóttir þeirra. Sorgin var mikil og ekki bætti úr skák að ljótir orðrómar fóru á kreik, meðal annars um að Mike hefði stungið af vegna fjárhagsvandræða sem hann var sagður glíma við. Sérfræðingar höfðu einnig efasemdir um að krókódílar hefðu étið líkið því vatnið var að þeirra sögn of kalt þegar Mike hvarf til að þeir hefðu matarlyst. Þess utan var bent á að það væri ansi sérstakt að ekkert fannst af líkinu. Í öðrum drukknunartilfellum í vatninu árin á undan höfðu alltaf fundist líkamsleifar. Michael DeVaney, lögreglumaður, sagði að krókódílar gleypi ekki fólk alveg, það sé alltaf eitthvað eftir.
Hálfu ári eftir að Mike hvarf fundust jakki hans, hattur og stígvél í vatninu en það vakti athygli að ekki var að sjá að þetta hefði verið lengi í því og ekki var að sjá að krókódílar hefðu komið nálægt fatnaðinum. En samt sem áður var áfram gengið út frá því að Mike hefði látist af slysförum og að krókódílar hefðu borðað hann. Dómari úrskurðaði að lokum að Mike væri látinn.
En ekki voru allir sáttir við niðurstöðuna, þar á meðal var bróðir Mike, Nick, og móðir þeirra Cheryl. „Við vorum aldrei í vafa um að það sem fannst í vatninu hálfu ári eftir að Mike hvarf hefði verið sett í vatnið af einhverjum,“ sagði Nick síðar í viðtali við Crime Watch Daily.
En í 17 ár töluðu þau fyrir daufum eyrum. En síðan gerðist það 2017 að lögreglan boðaði til fréttamannafundar. „Við höfum fundið lík Mike Williams. Við vitum að hann var myrtur,“ sagði Mark Perez, rannsóknarlögreglumaður, á fundinum.
Lögreglan hafði fengið ábendingu um að líkið væri grafið við árbakka einn. Þar gróf lögreglan eftir því og tæmdi lítið vatn í um klukkustundar fjarlægð frá Lake Seminole. Tveimur metrum undir árbakkanum fannst líkið. Staðsetning þess var þannig að ljóst var að krókódílar hefðu ekki getað komið því fyrir þar. Ástæðan fyrir að líkið fannst var að morðingi Mike hafði ákveðið að vera samvinnuþýður og benda á hvar líkið væri falið. Haustið 2017 var hann ákærður í mannránsmáli og ákvað þá að skýra frá máli Mike gegn því að fá vægari refsingu. Morðinginn var fyrrnefndur Brian Winchester, besti vinur Mike, sem hafði tekið svo virkan þátt í leitinni að honum.
Brian sagði lögreglunni að hann hefði verið rekinn áfram af löngun til að vera með eiginkonu Mike, Denise. Fimm árum eftir að Mike hvarf sagði hún já við bónorði hans en hann hafði stutt dyggilega við bakið á henni eftir hvarf Mike og verið stoð hennar og stytta. Eftir nokkurra ára hjónaband hafði Denise fengið nóg af Brian og vildi skilja við hann. Hann brást við því með því að ræna henni og hóta að drepa hana ef hún léti verði af því að krefjast skilnaðar.
Fólk studdi við bakið á Denise, ekki bara vegna þess að hún hafði fyrst misst eiginmann sinn og síðan verið rænt, heldur einnig vegna þess að svo kom í ljós að hún hafði gifst morðingja fyrri eiginmanns síns. „En það var eitthvað bogið við sögu Denise,“ sagði Derrick Wester, lögreglustjóri.
Skömmu eftir hvarf Mike árið 2000 tók lögreglan eftir því að Denise virtist ekki í sérstaklega miklu uppnámi vegna þess. Á síðari stigum málsins virtist aðaláhugi hennar beinast að því að láta úrskurða hann látinn. Hún sagði Cheryl að hún vildi gleyma Mike „og halda áfram með lífið“.
Það vakti einnig athygli lögreglunnar að Brian, sem var tryggingasölumaður, hafði líftryggt Mike fyrir eina milljón dollara sex mánuðum áður en hann hvarf. Denise var rétthafi tryggingarinnar. Þess utan hafði Denise keypt líftryggingu upp á 500.000 dollara fyrir Mike og var hún einnig skráð sem rétthafi hennar. Hún fékk líftryggingarnar greiddar um leið og Mike var formlega úrskurðaður látinn.
Með því að skoða peningaslóðina sá lögreglan að Denise hafði verið í peningavanda og skuldaði mikið. Brian sagði lögreglunni að hann og Denise hefðu átt í ástarsambandi í mörg ár áður en Mike hvarf. Hann sagði að þau hefðu gert samkomulag sín á milli um að losa sig við Mike til að geta gengið í hjónaband og fengið líftryggingar hans greiddar út.
Denise var ákærð fyrir morðið árið 2018 eða 18 árum eftir að Mike var myrtur. Fyrir dómi sagði Brian að hann hefði fengið Mike með sér á andaveiðar á Lake Seminole. Ætlunin hafi verið að láta þetta líta út eins og hann hefði drukknað. „Mike grunaði ekkert og horfði hissa á mig þegar ég hrinti honum útbyrðis,“ sagði Brian sem sigldi síðan í burtu viss um að jakki og stígvél Mike myndu sjá til þess að hann drukknaði. En Mike náði taki á trjábol og byrjaði að hrópa á hjálp. „Ég fylltist örvæntingu, sigldi aftur til hans, miðaði á hann og skaut hann í andlitið,“ sagði Brian.
Brian vildi ekki taka sökina á morðinu á sig einn og sagði að Denise hefði verið heilinn á bak við það. „Sannleikurinn um dauða Mike hefði aldrei komið fram ef hún hefði ekki kært mig fyrir mannrán,“ sagði hann fyrir dómi.
Denise vildi ekki kannast við að hafa komið að morðinu og sagði að Brian hefði verið einn að verki. Þessu trúði dómurinn ekki og var Denise dæmd í ævilangt fangelsi fyrir sinn þátt í morðinu. 2020 var dómurinn mildaður í 30 ára fangelsi.
Brian átti ævilangt fangelsi yfir höfði sér fyrir mannránið en hann samdi við lögregluna um vægari refsingu fyrir það, 20 ára fangelsi, fyrir að vitna gegn Denise og um að vera ekki ákærður í morðmálinu.