Aftonbladet segir að lögreglunni hafi verið tilkynnt um skothvelli skömmu eftir klukkan 22. Á vettvangi fundu lögreglumenn tvo mikið særða menn í stigagangi. Þeir voru strax fluttir á sjúkrahús. Á þriðja tímanum í nótt tilkynnti lögreglan að mennirnir væru báðir látnir.
Fjölmennt lögreglulið hefur verið á vettvangi í alla nótt. Tæknirannsóknir hafa farið fram og vitni hafa verið yfirheyrð en enginn hefur verið handtekinn vegna málsins. Aftonbladet segist hafa heimildir fyrir að morðinginn hafi flúið af vettvangi á rafskútu. Annar hinna látnu er sagður hafa verið með rafskútu hjá sér og hann var að sögn í skotheldu vesti.