Hann sagði að ákvörðun um hvernig landinu verði stýrt í framtíðinni verði tekin fljótlega. „Við heitum að tryggja öryggi íbúanna og sendimanna erlendra ríkja. Við erum reiðubúnir til að eiga í viðræðum við alla afganska áhrifamenn og munum tryggja þeim nauðsynlega vernd,“ sagði Mohammad Naeem, talsmaður Talibana, í samtali við Al Jazeera.
Margir Afganar og alþjóðasamfélagið óttast að Talibanar muni á nýjan leik kúga konur og stunda víðtæk mannréttindabrot eins og þeir gerðu áður þegar þeir voru við völd í landinu. Einnig hafa verið uppi áhyggjur af öryggi þeirra Afgana sem störfuðu fyrir vestræn sendiráð og herlið. Al Jazeera hefur eftir talsmanni Talibana að þessu fólki verði boðin friðhelgi. Hann sagði jafnframt að samtökin vilji ekki einangra sig og vilja eiga í samskiptum við alþjóðasamfélagið.
Líklegt má teljast að með þessum ummælum séu samtökin að reyna að draga upp þá mynd að þau séu mun hógværari en flestir telja.