Eldurinn nær nú yfir rúmlega 40 kílómetra svæði og allt að 5.000 hektarar gætu hafa brunnið að sögn yfirvalda.
600 íbúar í fimm bæjum í Avilahéraði hafa verið fluttir frá heimilum sínum nærri Sierra de Gredos fjallgarðinum. Þar berjast rúmlega 500 slökkviliðsmenn við eldinn og njóta aðstoðar slökkviflugvélar.
80 kílómetrum sunnar herjar annar skógareldur nærri El Raso. Slökkviliðsmenn glíma einnig við skógareld í Azuebar í austurhluta landsins en þar hafa rúmlega 500 hektarar brunnið síðan á laugardaginn.
Öflug hitabylgja hefur herjað á Spán síðan á miðvikudaginn og er reiknað með að hún nái hámarki í dag. Um helgina mældist 47,4 stiga hita í Cordoba. Ef Alþjóðaveðurfræðistofnunin viðurkennir mælinguna verður þetta spænskt hitamet.
Loftslagssérfræðingar hafa ítrekað varað við því að hnattræn hlýnun af mannavöldum muni valda því að hitinn hækki og öfgaveðuratburðir verði algengari. Frá 2011 til 2020 voru tvisvar sinnum fleiri hitabylgjur á Spáni en síðustu 30 árin þar á undan.