Jótlandspósturinn hefur eftir Anders Schelde, fjárfestingarstjóra hjá AkademikerPension, að gegnsæi skorti víða og oft sé jafnvægið á milli bónusa og fastra launa skakkt. Sjóðurinn á eignir upp á 140 milljarða danskra króna og er því stór aðili á hlutabréfamarkaðnum.
„Í flestum fyrirtækjum eru laun forstjóranna bara dropi í hafið en bara af því að það er mikið af peningum á maður ekki að taka þá alla,“ er haft eftir honum.
Hjá LD Fonde, sem á eignir upp á 55 milljarða danskra króna, er fólk sömu skoðunar og segir að fram að þessu hafi ekki verið tekið tillit til loftslagsmála, félagslegrar ábyrgðar og góðra stjórnunarhátta þegar bónusar stjórnenda eru ákveðnir.