Það er háþrýstisvæði sem veldur hitabylgjunni. Það myndaðist yfir austanverðu Miðjarðarhafi en er nú á leið vestur.
Í Túnis hefur hitinn farið í 49 stig í forsælu og í Alsír í 44 stig.
Spænsk og frönsk yfirvöld hafa sent frá sér viðvaranir vegna mikils hita sem er yfirvofandi næstu daga en því er spáð að hann fari vel yfir 40 stig.
Reiknað er með að hitinn muni bara hækka og hækka á Spáni um helgina. Sevilla, í Andalúsíu, er einn þeirra staða sem reiknað er með að hitinn verði einna hæstur. Norska veðurþjónustan YR spáir 47 stiga hita þar á mánudaginn. Ekki er útilokað að hitinn fari enn hærra en það og gæti evrópska hitametið jafnvel verið í hættu.