Á þriðjudaginn tilkynnti Andrew Cuomo um afsögn sína sem ríkisstjóri í New York í kjölfar ásakana um kynferðislega áreitni. Kathy Hochul tekur við embættinu. Á miðvikudaginn sagðist hún „algjörlega vera tilbúin“ til að stýra ríkinu og sagðist ætla að losa sig við alla starfsmenn stjórnar Cuomo sem sýni af sér „ósiðlegt“ athæfi.
Hún hefur verið vararíkisstjóri frá 2015 og lofaði að leggja sitt af mörkum við að koma ríkinu yfir þá erfiðleika sem við er að etja. Hún tekur við embætti 24. ágúst.
Þegar hún ræddi við blaðamenn í bandaríska þinghúsinu sagði hún að starfsumhverfi stjórnar hennar verði aldrei lýst sem „eitruðu“.