Tístið var merkt sem misvísandi af Twitter og lesendum ráðlagt að leita sér frekari upplýsinga hjá bandarískum heilbrigðisyfirvöldum. Talsmaður Twitter sagði að Taylor Greene muni ekki geta tíst í eina viku vegna endurtekinna brota á reglum miðilsins. Síða hennar er þó aðgengileg fyrir notendur Twitter.
Notendaskilmálar Twitter í tengslum við rangar upplýsingar um COVID-19 kveða á um að lokað verði fyrir aðgang notenda í eina viku ef þeir brjóta reglurnar fjórum sinnum. Ef brot halda áfram eftir það verður reikningunum jafnvel lokað fyrir fullt og allt.
Taylor Greene sakar Twitter um að hafa lokað á hana vegna þess að hún segi sannleikann og tísti um það sem margir segja.
Hún er ákafur stuðningsmaður Donald Trump, fyrrum forseta, og hefur stutt staðlausar fullyrðingar hans um að víðtækt kosningasvindl hafi kostað hann sigurinn í forsetakosningunum í nóvember. Fullyrðingar sem Trump hefur ekki getað fært neinar sönnur á og dómstólar hafa hafnað.
Hún hefur einnig komist í kastljósið vegna umdeildra ummæla í tengslum við önnur mál. Í maí lenti hún í miklum mótvindi innan Repúblikanaflokksins þegar hún líkti notkun andlitsgríma og bólusetningu gegn kórónuveirunni við ofsóknir nasista á hendur gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni. Margir áhrifamenn innan flokksins gagnrýndu hana harðlega fyrir þetta og að lokum varð hún að draga ummæli sín til baka og biðjast afsökunar.
Hún hefur einnig lýst yfir stuðningi við samsæriskenningahreyfinguna QAnon.