fbpx
Mánudagur 03.febrúar 2025
Pressan

Verður Donald Trump leynivopn Joe Biden og Demókrata?

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 1. ágúst 2021 10:30

Færði Biden Trump gjöf með þessu?

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Joe Biden hefur nú setið í embætti forseta Bandaríkjanna í um hálft ár og má segja að hann hafi verið iðinn við kolann við að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd en þau snúa mörg hver að umbótum á ýmsum sviðum. En hann verður að hafa hraðar hendur til að koma þeim öllum í framkvæmd á meðan Demókratar eru með forsetaembættið í sínum höndum og meirihluta í báðum deildum þingsins. En hugsanlega verður Donald Trump leynivopn Biden og bjargvættur Demókrata.

Ekki er talið útilokað að Demókratar missi meirihluta sinn á þingi á næsta ári þegar kosið verður um öll sætin í fulltrúadeildinni og hluta sæta í öldungadeildinni. Bandarískir kjósendur eru gjarnir á að refsa sitjandi forseta í kosningunum á miðju kjörtímabili hans með því að kjósa hinn flokkinn og tryggja honum meirihluta á þingi.

Biden hefur unnið að kappi og hefur gefið út 52 forsetatilskipanir síðan hann tók við völdum. Hann nýtir sér þennan möguleika til að fara fram hjá þinginu sem er þekkt fyrir að vinna mjög hægt og ekki bætir úr skák að samstarf Demókrata og Repúblikana á þingi er nánast ekki fyrir hendi um þessar mundir. En þrátt fyrir að Biden hafi verið iðinn við kolann óttast margir Demókratar að hann muni ekki ná öllum markmiðum sínum.

Forsetatilskipanir tryggja meiri hraða en eru ekki endilega góðar fyrir lýðræðið í Bandaríkjunum sem á nú þegar í vök að verjast vegna harðra árása Donald Trump og stuðningsfólks hans á það eftir ósigur hans í forsetakosningunum á síðasta ári.

Trump nýtti sér forsetatilskipanir 39 sinnum á fyrstu sex mánuðum sínum í embætti, Barack Obama gerði það 22 sinnum og George WBush 23 sinnum að sögn Wall Street Journal.

Stærsti pólitíski sigur Biden til þessa var samþykkt risastórs björgunarpakka í mars en honum var eiginlega laumað inn bakdyrameginn á þinginu til að komast hjá hinum hefðbundnu og seinlegu ferlum þar. Næsta stóra verkefni er metnaðarfull áætlun um uppbyggingu innviða fyrir 6.000 milljarða dollara. Af nægu er að taka því innviðir eru víða illa farnir í Bandaríkjunum og Biden er í sterkri stöðu að selja almenningi hugmyndina því flestir ef ekki allir munu njóta góðs af betri innviðum.

En hann stendur einnig frammi fyrir ákveðnum vandamálum, til dæmis við landamæri Mexíkó þar sem ásókn innflytjenda er í hæstu hæðum, ofbeldi hefur færst í vöxt um allt land og Demókratar og Repúblikanar takast harkalega á um kosningalöggjöf og framkvæmd kosninga í framtíðinni. Þetta veldur allt þrýstingi á Biden sem nýtur nú stuðnings um 52% kjósenda en 42% eru honum andsnúin. En það er óvíst að meirihlutastuðningur við Biden tryggi Demókrötum sigur í þingkosningunum á næsta ári. Það dugir Repúblikönum að ná meirihluta í annarri deild þingsins, þá geta þeir stöðvað stefnumál Biden og Demókrata. Þá má búast við að allt verði stál í stál þar til næst verður kosið til þings og um forseta, haustið 2024.

Demókratar standa einnig frammi fyrir ákveðnum vanda varðandi næstu forsetakosningar. Eiga þeir þá að veðja aftur á Biden, sem verður orðinn 82 ára, eða veðja á endurnýjun í formi Kamala Harris, núverandi varaforseta? Hún sópar ekki að sér fylgi og því ekki víst að hún þyki góður kostur. Margir sjá því fram á góða möguleika fyrir Repúblikana til að ná aftur völdum í Hvíta húsinu. En Demókratar gætu fengið hjálp úr óvæntri átt. Frá engum öðrum en erkióvininum Donald Trump.

Það fer minna fyrir Trump núna en fyrst eftir ósigur hans í forsetakosningunum en hann er samt sem áður enn áhrifamikill hvað varðar stefnu íhaldsmanna og ef hann ákveður að sækjast aftur eftir að verða forsetaframbjóðandi Repúblikana er ekki að sjá að neinn Repúblikani geti sigrað hann í forkosningum flokksins. The Hill segir að Trump hafi það í hendi sér að sigra í forvali flokksins ef hann ákveður að bjóða sig fram. Hann hafi veitt andstæðingum sínum í flokknum þung högg og sé áhrifamikill.

Hann sagðist nýlega vera búinn að taka ákvörðun um hvort hann bjóði sig fram en vilji ekki skýra frá henni enn sem komið er. Það myndi gleðja milljónir stuðningsmanna hans ef nafn hans verður á kjörseðlinum 2024 en margir Demókratar brosa einnig í laumi yfir tilhugsuninni um að Trump verði í framboði. Þeir eiga von á að sífellt öfgafyllri orðræða Trump, til dæmis hvað varðar staðlausar ásakanir hans um kosningasvindl, muni fæla marga óháða kjósendur frá því að kjósa hann og það sama muni gilda um hófsama Repúblikana. Trump gæti því orðið leynivopn Demókrata í kosningunum 2024.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Hættu í megrun – Svona léttist þú án þess að svelta þig

Hættu í megrun – Svona léttist þú án þess að svelta þig
Pressan
Í gær

Dularfullar myndir frá Mars valda fjaðrafoki hjá samsæriskenningasmiðum – Musk vill rannsaka málið

Dularfullar myndir frá Mars valda fjaðrafoki hjá samsæriskenningasmiðum – Musk vill rannsaka málið
Pressan
Fyrir 2 dögum

Syrgjandi mæður úthúða stjörnunni

Syrgjandi mæður úthúða stjörnunni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þetta eru ókostirnir við airfryer sem sölumenn gleyma oft að nefna

Þetta eru ókostirnir við airfryer sem sölumenn gleyma oft að nefna
Pressan
Fyrir 3 dögum

Settu 25 kg ferðatösku ofan á rúmið til að halda barninu í því – Það kramdist til bana

Settu 25 kg ferðatösku ofan á rúmið til að halda barninu í því – Það kramdist til bana
Pressan
Fyrir 3 dögum

Baráttuandi meðal ríkisstarfsmanna Bandaríkjanna sem ætla að verja lýðræðið – „Við eigum í stríði“

Baráttuandi meðal ríkisstarfsmanna Bandaríkjanna sem ætla að verja lýðræðið – „Við eigum í stríði“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Stærsti ísjaki heims stefnir á eyju eina og gæti ógnað lífi milljóna mörgæsa

Stærsti ísjaki heims stefnir á eyju eina og gæti ógnað lífi milljóna mörgæsa
Pressan
Fyrir 3 dögum

Nýtt hættumat – Mikil ógn steðjar að Danmörku

Nýtt hættumat – Mikil ógn steðjar að Danmörku