Það var á ellefta tímanum í gærmorgun sem íbúar í bænum Tormestorp fengu veður af að eitthvað mikið væri að. Járnbrautarlest stóð kyrr nærri bænum en venjulega ekur hún fram hjá því. Skömmu síðar barst frétt um að nokkrir hefðu orðið fyrir lest nærri bænum. Nokkrum klukkustundum síðar tilkynnti lögreglan að einn hefði látist.
í gærkvöldi kom hún síðan með nýja tilkynningu um málið. Þá var skýrt frá því að tvö börn og fullorðinn einstaklingur hefðu látist þegar þau urðu fyrir X 2000 lestinni frá Malmö sem var á 180 km/klst þegar hún lenti á fólkinu. Lögreglan sagði jafnframt að grunur leiki á að sá fullorðni hafi valdið dauða barnanna.
Lögreglan skýrði frá því að börnin og hinn fullorðni tengdust en vildi ekki skýra nánar hvernig þeim tengslum var háttað. Út frá þeim gögnum sem liggja fyrir telur lögreglan að ekki hafi verið um slys að ræða, heldur morð af yfirlögðu ráði þar sem sá fullorðni banaði börnunum.