„Við áttum ekki von á þessu. Við áttum ekki von á að finna svona mikið, að minnsta kosti ekki í fjögurra metra fjarlægð, en það gerðum við,“ hefur VG eftir Jostein Gohli, hjá FFI.
Gohli er í forsvari fyrir NorCov2 rannsóknina sem miðar að því að kortleggja hvernig kórónuveiran hegðar sér.
Hann sagði að þrátt fyrir að veiran hafi fundist í fjögurra metra fjarlægð frá hinum smitaða sé það ekki ávísun á að hún smitist í svo mikilli fjarlægð.
Mælingar voru gerðar í eins, tveggja og fjögurra metra fjarlægð í herbergi til að sjá hvenær veiran væri til staðar.
„Tækin okkar mældu veiruna í fjögurra metra fjarlægð. Hún fór svo langt. Það er það eina sem við vitum með vissu,“ sagði Gohli og lagði áherslu á að ekki hafi verið sýnt fram á að veiran smiti fólk í svo mikilli fjarlægð.