Flugmaður verður í loftbelgnum sem er að sögn hátækniútgáfa af venjulegum loftbelg. Átta farþegar geta farið með í hverja ferð. Neðan úr sjálfum loftbelgnum mun stórt þrýstingsjafnað hylki hanga en þar verða farþegarnir og flugmaðurinn. CNN skýrir frá þessu.
Það er fyrirtækið Space Perspective sem stendur á bak við þetta og er farið að taka við bókunum fyrir Spaceship Neptune sem á að fara í fyrstu ferð sína 2024. Það er ekki á allra færi að fara í svona ferð því hún kostar 125.000 dollara á mann en það svarar til um 15,5 milljóna íslenskra króna.
Loftbelgurinn fór í fyrsta reynsluflug sitt þann 18. júní. Það var ómannað en myndavélar voru um borð svo starfsmenn á jörðu niðri gætu fylgst með fluginu sem tókst að sögn vel en það stóð yfir í sex klukkustundir og 39 mínútum betur.
Hver ferð mun taka um sex klukkustundir. Fyrstu tvær klukkustundirnar fara í að komast upp að mörkum gufuhvolfsins eða í 100.000 feta hæð. Þar mun loftbelgurinn svífa um í tvær klukkustundir áður en tveggja klukkustunda ferð niður á við hefst. Lent verður í sjó þar sem skip bíður þess að flytja farþegana í land.