Rannsóknir alþjóðlegs hóps vísindamanna, undir forystu Qiang Ji prófessors við Hebei Geo háskólann í Kína, hafa leitt í ljós að höfuðkúpan er að minnsta kosti 146.000 ára gömul. Hún er sögð einstök blanda frumstæðra einkenna sem og nýlegri einkenna. Andlitið er sagt líkjast nútímamanninum, Homo sapiens, sérstaklega mikið. En þar með er ekki öll sagan sögð því hún er mun stærri en höfuðkúpur nútímamanna en hún er 15×23 cm sem er töluvert stærra en höfuðkúpur okkar nútímamanna og í henni er gott rými fyrir heila á stærð við heila okkar nútímamanna.
„Ég tel þetta vera eina merkustu uppgötvun síðustu 50 ára,“ hefur The Guardian eftir Chris Stringer, prófessor við the Natural History Museum í Lundúnum, en hann kom að rannsókninni. Hann sagði að höfuðkúpan hefði varðveist mjög vel.
Kínverskir vísindamenn segja að höfuðkúpan sé af áður óþekktri tegund manna og hafa nefnt hana Homo longi eða „Drekamanninn“. Þeir telja að höfuðkúpan skeri sig svo mikið frá öðrum að hún sé af áður óþekktri tegund en Stringer er ekki sannfærður um það og telur að svipuð höfuðkúpa hafi fundist í Dali í Kína 1978.
Rannsóknir vísindamannanna benda til að höfuðkúpan sé af tegund sem er skyldari nútímamönnum en Neanderdalsmönnum. Stringer sagðist sjálfur kalla tegundina Homo daliensis en það sé ekki aðalatriði í málinu, aðalatriðið sé að þetta sé tegund sem skilji sig frá Neanderdalsmönnum og nútímamönnum.