Í nýrri rannsókn gerðu vísindamenn lista yfir nálæg sólkerfi þar sem staðsetning pláneta er þannig að frá þeim er hægt að sjá jörðina og hugsanlega uppgötva að líf þrífist hér.
Vísindamennirnir fundu 1.715 sólkerfi á nágrannasvæði okkar í himingeimnum þar sem vitsmunaverur gætu hafa séð til jarðarinnar á síðustu 5.000 árum þegar hún fór fram hjá sólinni og geta séð til hennar á næstu 5.000 árum.
Á meðal þessara sólkerfa eru 46 svo nálægt að þar er hægt að greina ótvíræð merki um tilvist okkar mannanna en það eru útvarps- og sjónvarpsmerki en slíkar útsendingar hófust fyrir um 100 árum.
Vísindamennirnir telja að 29 plánetur, sem séu hugsanlega byggilegar, séu þannig staðsettar að þaðan sé hægt að sjá jörðina fara fyrir sólina og hlusta eftir útvarps- og sjónvarpssendingum frá okkur. En hvort hugsanlegar vitsmunaverur á þessum plánetum hafa nokkurn áhuga á að setja sig í samband við okkur ef þær heyra þessi merki er síðan allt annað mál.