Þetta kemur fram í nýju tölum frá danska seðlabankanum og miðast þær við stöðuna í júní. Frá maí og fram í júní lækkuðu innistæðurnar þó um 2,7 milljarða. Innistæðurnar fóru yfir 1.000 milljarða vorið 2020 og jukust um 45 milljarða á síðasta ári.
Ástæðan fyrir þessari aukningu innlána er að fólk gat ekki eytt eins miklum peningum og það er vant vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og að auki fengu margir greiddar út töluverðar upphæðir af orlofsfé sem átti í raun að geyma þar til fólk byrjaði töku eftirlauna. Ákveðið var að greiða þessa peninga út til að örva efnahagslífið og reyna að ýta undir neyslu fólks.
Innlánin náðu sögulegu hámarki í apríl á þessu ári þegar þau komust í 1.051 milljarða en eftir það byrjaði fólk greinilega að ganga á innistæður sínar og í júní voru þær komnar niður í 1.038 milljarða. Þetta svarar til þess að hver Dani eigi að meðaltali 223.000 krónur, sem svarar til um 4,4 milljóna íslenskra króna, í banka. En auðvitað er það ekki þannig því eignunum er misskipt.
Vextir eru mjög lágir í Danmörku og samkvæmt tölum frá seðlabankanum þá voru 310 milljarðar af 1.038 milljörðum á reikningum sem báru neikvæða vexti.