Nokkrum dögum áður en skýrslan var birt lýsti Taro Aso, varaforsætisráðherra, því yfir að ef Kínverjar ráðast á Taívan verði það túlkað sem árás á Japan og því geti Japanar virkjað rétt sinn til sjálfsvarnar.
Vegna friðsamrar löggjafar Japan er þetta mjög viðkvæmt og umdeilt en stjórnarskrá landsins heimilar ekki að her landsins berjist utan Japan og að aðeins megi nota vopn í sjálfsvörn.
Það skiptir því miklu að Japanar ætla að túlka hugsanlegar árásir Kínverja á Taívan sem árás á þá sjálfa og þannig virkja sjálfsvarnarréttinn. Japanski herinn er mjög öflugur en hefur ekki tekið þátt í hernaði erlendis síðustu áratugi nema hvað hermenn hafa unnið við flutninga og þess háttar í verkefnum á vegum SÞ, NATO og með Bandaríkjaher.
En hægt og rólega hafa Japanar verið að breyta stefnu sinni í hernaðarmálum og hafa aukið samstarf sitt, aðallega á sjó, við Evrópuríki.