CNN skýrir frá þessu. Fram kemur að eldarnir séu svo miklir að reykinn leggi 3.000 kílómetra, allt að ströndum Alaska. Í gær var reykjarmökkurinn svo þykkur að banna varð allt flug í stærsta hluta Sakha í Rússlandi. Eldarnir hafa nú þegar eyðilagt 26 þúsund fermetra skóglendis í Síberíu en það svarar til um fimm milljóna knattspyrnuvalla.
Loftslagssérfræðingar segja að skógareldar ársins séu sérstaklega slæmir. Orsökin er miklir þurrkar víða en í norðvesturhluta Bandaríkjanna og Kanada hefur verið mjög heitt og miklir þurrkar. Sama á við í stórum hluta Evrópu og víða í Suður-Ameríku.
Thomas Smith, prófessor í umhverfislandafræði við London School of Economics, sagðist í samtali við CNN óttast að stór landsvæði í Síberíu væru nú ónýt til frambúðar. „Við sjáum fleiri skógarelda í Síberíu. Nú gerist þetta á 10 til 30 ára fresti en áður gerðist þetta einu sinni á öld. Við óttumst að skógurinn nái ekki að vaxa á nýjan leik og að við sitjum uppi með kjarrlendi eða grassléttur.“