„Sérstakur refsiafsláttur fyrir ungmenni á aldrinum 18 til 20 ára fyrir gróf afbrot verður afnuminn. Það á að vera hægt að dæma 18 ára í ævilangt fangelsi. Það er betra að við lögum okkur að þessu og horfum á þá sem fremja afbrot á kerfisbundinn hátt og lifa eins og glæpamenn,“ segir Morgan Johansson, dómsmálaráðherra.
Hann segir að hægt eigi að vera að dæma afbrotamenn á aldrinum 18 til 20 ára, sem séu fundnir sekir um afbrot á borð við morð, rán, meiriháttar líkamsárásir og gróf brot á vopnalöggjöfinni í ævilangt fangelsi.
Miklar umræður hafa verið í Svíþjóð síðustu misseri um svokallaðan „ungmennaafslátt“ af refsingum, sérstaklega í ljósi fjölda skotárása og morða þar sem ungir menn hafa verið að verki. „Ég tel mikilvægt að við getum stöðvað afbrotaferilinn,“ segir Johansson.