Það var í gærmorgun sem lögreglan handtók fólkið en á meðal hinna handteknu eru stjórnendur sjúkrahússins, sem heitir Guillermo Almenara Irigoyen, sem er í Lima.
Lögreglunni hafði borist ábending frá bróður sjúklings sem var krafinn um sem svarar til um 2,5 milljóna íslenskra króna fyrir pláss á gjörgæsludeild og læknismeðferð.
Þegar heimsfaraldurinn var í hámarki í Perú greiddu margir sjúklingar háar upphæðir til að komast að á einkasjúkrahúsum en þá var opinbera heilbrigðiskerfið komið að fótum fram.
Á Guillermo Almenara Irigoyen sjúkrahúsinu á öll þjónusta að vera ókeypis en það getur hins vegar verið löng bið eftir að komast að en 80 gjörgæslurými eru þar.
Í mars á síðasta ári voru aðeins nokkur hundruð gjörgæslurými í öllu landinu en þau eru nú um 3.000 að sögn Sky News. Rúmlega tvær milljónir Perúbúa hafa greinst með kórónuveiruna og tæplega 200.000 dauðsföll af völdum COVID-19 hafa verið skráð. 33 milljónir búa í landinu.