Norskir fjölmiðlar skýrðu frá þessu í gær. Fram kemur að handtökurnar hafi verið gerðar eftir að vopn og skotfæri fundust heima hjá manni á fertugsaldri sem býr í Bodø.
Heima hjá honum fann lögreglan 6 vélbyssur, 10 riffla, 5 skammbyssur, skothylkjageyma, rúmlega 8.000 skot og fleira tengt skotvopnum. Vopnin eru að sögn gömul, sum frá síðari heimsstyrjöldinni. Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum kemur fram að mörg vopnanna hafi verið nothæf þrátt fyrir að vera ansi gömul. Maðurinn var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.
Norska ríkisútvarpið segir að málið tengist hópi fólks sem hefur keypt og selt ólögleg vopn og tengjast sumir úr þessum hópi samtökum öfgahægrimanna.
Lögreglan hefur unnið að rannsókn málsins í margar vikur. Auk mannsins frá Bodø var karlmaður á fertugsaldri frá Lillestrøm úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald og það sama gildir um karlmann á þrítugsaldri frá Hamar.
Lögreglan veit ekki í hvaða tilgangi átti að nota vopnin eða hvernig mennirnir komust yfir þau.