Bill Blair, ráðherra öryggismála, sagði á fréttamannafundi að Three Percenters hafi verið tengd við sprengjuárásir, sem beindust gegn bandarískum stjórnarbyggingum og samfélögum múslíma. Þau hafi einnig haft í hyggju að ræna Gretchen Whitmer, ríkisstjóra í Michigan, og sprengja sprengjur í tengslum við mannránið.
Aðeins eru nokkrar vikur síðan fjórir meðlimir samtakanna voru handteknir og ákærðir fyrir samsæri og fyrir þátttöku í árásinni á bandaríska þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn.
Ekki er langt síðan kanadísk yfirvöld lýstu Proud Boys samtökin hryðjuverkasamtök en það eru einnig samtök öfgahægrimanna sem lýsa sér sjálfum sem „Vestrænum karlrembum“. Samtökin eru þekkt fyrir tengsl félagsmanna við ofbeldisverk. Bandarísk stjórnvöld hafa ekki lýst Proud Boys eða Three Percenters sem hryðjuverkasamtök.
The Three Percenters samtökin voru stofnuð 2008. Nafnið er rakið til staðlausra fullyrðinga um að aðeins 3% landnema hafi barist gegn Bretum þegar Bandaríkjamenn börðust fyrir sjálfstæði sínu.