Það hefur verið sýnt fram á að kórónuveiran berst aðallega með lofti, með örsmáum dropum sem berast frá vitum okkar og aðrir anda að sér.
Í umfjöllun Sky News kemur fram að margar tilraunir á rannsóknarstofum og niðurstöður margra rannsókna sýni að einn helsti ávinningurinn við að nota andlitsgrímur sé að þær komi í veg fyrir að um 80% af þessum örsmáu dropum sleppi út í loftið og geti komið í veg fyrir að annað fólk andi 50% þeirra að sér.
Hvað varðar rannsóknar úti á vettvangi, meðal fólks, er erfiðara að koma þeim við en bandaríska smitsjúkdómastofnunin, CDC, hefur bent á niðurstöður nokkurra.
Í einni komu tveir hárgreiðslumeistarar við sögu. Þeir voru báðir með einkenni COVID-19. Á átta daga tímabili áttu þeir í samskiptum við 139 manns. Bæði hárgreiðslumeistararnir og viðskiptavinirnir notuðu andlitsgrímur. 67 af viðskiptavinunum féllust á að ræða við rannsakendur og fara í sýnatöku. Enginn þeirra reyndist hafa smitast.
Niðurstöður kínverskrar rannsóknar, sem var byggð á smitum á 124 heimilum, sýna að ef bæði sá smitaði og aðrir heimilismenn notuðu andlitsgrímur voru smitin 79% færri en annars.
Um borð í flugmóðurskipinu USS Theodre Roosevelt, þar sem þröngt er um áhöfnina og ekki auðvelt að stunda félagsforðun, sýndi rannsókn að 70% minni líkur voru á smiti hjá þeim sem notuðu andlitsgrímur.
Niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar, sem var birt í vísindaritinu The Lancet, sýna að notkun andlitsgríma gerði að verkum að aðeins voru 3% líkur að smitast af kórónuveirunni. Rannsóknin var byggð á gögnum úr 172 rannsóknum frá 16 löndum.