Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu The Lancet Oncology.
Karlar voru þrír fjórðu þeirra sem greindust með krabbamein sem er talið afleiðing áfengisneyslu. Er þá átt við mikla áfengisneyslu í flestum tilfellum en þó er eitt af hverjum sjö tilfellum tengt við hóflega áfengisneyslu.
Rannsakendurnir fóru yfir gögn um áfengissölu, framleiðslu, skatt og neyslu til að kortleggja hversu mikið fólk drakk daglega í hinum ýmsu löndum árið 2010. Miðað var við það ár þar sem svo langt er um liðið að áhrif áfengisneyslunnar á krabbamein ættu að vera komin fram.
Út frá þessum gögnum telja rannsakendurnir að fjögur prósent allra krabbameinstilfella á síðasta ári tengist áfengisneyslu beint eða 741.300 tilfelli. Af þeim voru karlar 568.799 eða 77%.
Niðurstöðurnar sýna að fjöldi krabbameinstilfella, tengdum áfengisneyslu, er mjög mismunandi á milli heimshluta. Flest eru tilfellin í austanverðri Asíu og Mið- og Austur-Evrópu en fæst í Norður-Ameríku og vestanverðri Asíu.