Í grein í vísindaritinu Human Evolution er skýrt frá rannsókninni. Rannsakendurnir segja að það að hafa fundið ættingja da Vinci geti komið sagnfræðingum að gagni við rannsóknir á málum tengdum da Vinci.
Da Vinci fæddist 15. apríl 1452 og lést 1519. Hann átti ekki börn en er sagður hafa átt 22 hálfsystkini. Rannsakendurnir röktu sig aftur um 21 kynslóð eða 700 ár.
Næsta skref er að rannsaka erfðaefni ættingja da Vinci og þá sérstaklega Y-litninginn en hann erfist í karllegg. Rannsakendurnir segja að þar sem karlleggur ættarinnar hafi ekki rofnað í þessi 700 ár sé hugsanlegt að Y-litningurinn sé óbreyttur.
Vonast er til að DNA-rannsókn varpi ljósi á heilsufar og persónuleika da Vinci.