Aftonbladet hefur í fórum sínum skjöl frá þingrétti þar sem fram kemur að hjónaband konunnar hafi verið henni erfitt. Eiginmaður hennar hafi verið mjög afbrýðisamur og hafi beitt hana ofbeldi og haft í hótunum við hana. Umrædd skjöl snúast um umsókn konunnar um að fá fullt forræði yfir börnunum. Í þeim kemur fram að eiginmaður konunnar hafi orðið ofbeldisfyllri og haft oftar í hótunum við hana eftir að þau eignuðust fyrra barnið.
Konan viðraði oft þá ósk sína að skilja en maðurinn vildi ekki fallast á það og sagði hún að hann hafi verið afbrýðisamur og hafi haft í hótunum við hana.
Aftonbladet segir að rannsókn lögreglunnar beinist að því hvort það sem fram fór fyrir þingrétti sé hluti af skýringunni á bak við morðin og sjálfsvígið. Að konan hafi af ásettu ráði tekið sér stöðu á lestarteinunum með börnin sín. Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig neitt um rannsókn málsins.