Að minnsta kosti 100 vopnaðir menn á mótorhjólum réðust á þorpið Tchoma Bangou á sunnudaginn. 49 féllu í átökunum, flestir úr hópi hryðjuverkamannanna. Fimm óbreyttir borgarar og fjórir hermenn féllu að sögn varnarmálaráðuneytisins.
Ekki hefur verið skýrt frá hvaða hryðjuverkasamtök stóðu að baki árásinni.
Hermenn lögðu hald á mótorhjól og mikið magn vopna.
Tchoma Bangou er í Tillaberihéraðinu sem liggur að landamærum Malí og Búrkína Fasó. Öfgasinnaðir múslimar hafa margoft gert árásir á þessu svæði.
Níger er eitt fátækasta ríki heims en þar hefur vargöld ríkt árum saman vegna hernaðar öfgasinnaðra múslima og Boko Haram hryðjuverkasamtakanna frá Nígeríu.
Mörg hundruð manns hafa látist og SÞ telja að um 300.000 hafi hrakist frá heimilum sínum.