Mótmælin hófust í San Antonio de los Banos, 50.000 manna bæ sunnan við höfuðborgina Havana, í kjölfar heimsóknar Miguel Díaz-Canel, forseta. Skömmu síðar höfðu mótmælin breiðst út til Havana og Santiago.
Mótmælendur létu í ljós óánægju sína með sóttvarnaaðgerðir vegna heimsfaraldursins og hægagangi við bólusetningar. Þeir sögðu þetta vera svik af hálfu yfirvalda.
Langar raðir eftir mat, rafmagnsleysi og mikill skortur á lyfjum hefur valdið sífellt meiri óánægju og óróa meðal landsmanna. Segja innfæddir að þeir geti hvorki fengið mat né lyf ef þeir eiga ekki erlendan gjaldeyri til að versla í sérstökum verslunum fyrir útlendinga.
Díaz-Canel, sem einnig er formaður kommúnistaflokksins, flutti sjónvarpsávarp síðdegis í gær vegna mótmælanna og varpaði sökinni í erkióvininn, Bandaríkin. Hann sagði að þær refsiaðgerðir sem Bandaríkin beita Kúba séu aðalástæðan fyrir slæmu efnahagsástandi í landinu. Hann hvatti stuðningsmenn sína til að fara út á götu og „mæta þeim sem ögra“ og átti þá við þá sem mótmæltu ástandinu.
Sjónarvottar segja að fjölmennt lögreglulið hafi verið á götum úti í Havana í gær og sérsveitarmenn úr hernum hafi einnig verið þar á ferð. Mikið fjölmenni var við ströndina í borginni í gær en ekki hafa borist fréttir af átökum.
Kúba gengur nú í gegnum verstu bylgju kórónuveirufaraldursins. Í gær greindust tæplega 7.000 smit og 47 létust. Heilbrigðisyfirvöld segja þessar tölur skelfilegar og að þær hækki daglega.