Sænska lögreglan tilkynnti klukkan 22.34 að lögreglumaður hefði verið skotinn og fluttur særður á sjúkrahús. Skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt var síðan staðfest að lögreglumaðurinn hefði látist af sárum sínum.
„Við höfum fengið þau sorglegu tíðindi að félagi okkar er látinn eftir að hafa verið skotinn í kvöld,“ sagði Anders Thornberg, ríkislögreglustjóri, í fréttatilkynningu að sögn Sænska ríkisútvarpsins.
Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins en lögreglan hefur unnið að rannsókn þess í alla nótt. Vitni hafa verið yfirheyrð sem og íbúar í nágrenninu.
Gautaborgarpósturinn hefur eftir vitni að þrír skothvellir hafi heyrst. Fljótlega eftir að tilkynnt var um árásina var mikill fjöldi þungvopnaðra lögreglumanna mættur á svæðið og hefur verið þar við störf í alla nótt.
Frá árinu 1900 hafa 32 sænskir lögreglumenn látið lífið við skyldustörf og er morðið í gærkvöldi þar talið með. Síðast var lögreglumaður myrtur árið 2007 en þá var 32 ára lögreglumaður skotinn til bana í Nyköping.