Mirror segir að indverskir læknar hafi greint nokkur sjúkdómseinkenni sem þeir telja að tengist Deltaafbrigðinu (áður kallað indverska afbrigðið). Haft er eftir Ganesh Manudhane, hjartalækni í Mumbai, að sumir sjúklinganna fái svo alvarlega blóðtappa að það leiði til kolbrands.
Heyrnartap og síendurtekin magavandamál með uppköstum, ógleði og niðurgangi virðast einnig vera einkenni sem fylgja Deltaafbrigðinu.
Það er nokkuð útbreitt í Bretlandi og hefur einnig fundist í Noregi.
„Í fyrra töldum við að við hefðum lært eitthvað um þennan nýja óvin okkar en það hefur breyst,“ hefur Bloomberg eftir Abdul Ghafu, lækni á Apollo sjúkrahúsinu í Chennai. „Þessi veira er orðin svo óútreiknanleg,“ sagði hann einnig. Hann bar sjúkdómseinkennin saman við sjúkdómseinkennin í fyrstu bylgjunni og sagðist telja að nú væri niðurgangur miklu algengari en áður hjá sjúklingunum.
Sex þekktir indverskir læknar hafa að sögn Bloomberg skýrt frá einkennum á borð við magaverki, ógleði, uppköst, niðurgang, lystarleysi, heyrnartap og liðaverki.
Smitum hefur heldur fækkað á Indlandi að undanförnu eftir skelfilegan maí þar sem faraldurinn virtist stjórnlaus.