Á síðunni er hægt að lesa umsagnir frá venjulegu fólki um hvað því finnst um eitt og annað tengt ferðalögum. Ef farið er eftir umsögninni sem hér er fjallað um þá er rétt að halda sig víðs fjarri Llyn Geirionydd vatninu í Wales. 26 hafa gefið staðnum umsögn og af þeim gáfu tveir honum umsögnina „í meðallagi“ og „hryllilegt“. Það er einmitt „hryllilegt“ umsögnin sem hefur vakið mikla athygli.
„Fór að vatninu um mitt sumar þegar það var enn kalt. Hvað er í gangi?!?! Ég varð að fara upp margar brekkur til að komast að því OG ÞAÐ VAR EKKERT FARSÍMASAMBAND,“ skrifar viðkomandi sem finnst greinilega gaman að skrifa með hástöfum því áfram er haldið með hástöfum: „OG ÞAÐ VORU ALLT OF MARGIR STEINAR.“
Því næst víkur að matarmálum og er hinn allt annað en jákvæði umsagnaraðili ekki sáttur við þau. „Mig langaði í McDonald‘s en það var enginn þarna. Hvernig á ég að hjálpa til við að endurreisa efnahagslífið ef það er enginn McDonald‘s? Það væri líka í lagi að vera með KFC eða Burger King eða bara Subway í staðinn.“
Viðkomandi játar þó að landslagið sé fallegt en það hafi þó haft sína galla. „Það var fallegt en það truflaði mig og kajakinn minn valt, sem var mjög óheppilegt.“