Þessi ummæli eru staðfesting á því sem erlendir fréttaskýrendur hafa talið sig sjá á nýlegum myndum af leiðtoganum en á þeim er ekki annað að sjá en hann hafi misst ansi mörg kíló. Þetta hefur orðið tilefni vangaveltna í mörgum erlendum fjölmiðlum og margir hafa velt því upp að óhollir lífshættir leiðtogans hafi að lokum neytt hann til að léttast. Hann er í ofþyngd og reykir að auki segir The Guardian. Líkamsástand föður hans var svipað og lifnaðarhættir hans svipaðir en hann lést af völdum hjartaáfalls í desember 2011.
Á síðasta ári var tilkynnt að þessi lágvaxni einræðisherra væri 140 kíló og hefði bætt 6-7 kílóum á sig árlega síðan hann tók við sem leiðtogi landsins þegar faðir hans lést.
Kim Jong-un hafði ekki sést opinberlega í um einn mánuð þegar myndir birtust af honum í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu fyrr í mánuðinum. Þá tóku sérfræðingar hjá NK News, sem er heimasíða sem er rekin frá Suður-Kóreu og sérhæfir sig í málefnum Norður-Kóreu, eftir því að leiðtoginn hafði grennst. Þeir bentu meðal annars á að búið væri að þrengja ólina á úrinu hans svo það passaði á grennri úlnlið hans.
Útlitsbreyting leiðtogans sést ágætlega á myndunum hér fyrir neðan. Sú fyrri er síðan í febrúar en sú nýrri aðeins nokkurra daga gömul.
Kim Jong-un heldur fast um völdin í Norður-Kóreu og ekki er vitað hver mun taka við af honum þegar hann deyr, leiðtogar landsins eru við völd þar til þeir deyja, og því fylgjast erlendar leyniþjónustustofnanir, erlendir fjölmiðlar og ýmsir aðrir vel með heilsufari hans.
Á síðasta ári voru miklar vangaveltur um heilsufar hans eftir að hann lét ekki sjá sig við hátíðarhöld þann 15. apríl þegar fæðingu Kim Il-sung, afa hans og stofnanda ríkisins, var fagnað. Hann sást ekki aftur á almannafæri fyrr en í maí.