Breytilegt loftslag, léleg umgengni okkar við vatn og sífellt fleira fólk mun valda því að „heimsfaraldrar“ skelfilegra þurrka munu skella á okkur. Þetta kemur fram í sérstakri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um þurrka. ScienceAlert skýrir frá þessu. Fram kemur að í skýrslunni komi fram að mikill vandi muni steðja að okkur á næstu árum vegna minni úrkomu á mikilvægum stöðum um allan heim. Í skýrslunni er skoðað hvað veldur þessum þurrkum og hvernig við getum tekist á við vatnsskort.
Margir jarðarbúar finna nú þegar fyrir því á eigin skinni að hnattræn hlýnun veldur því að vatn dreifist nú öðruvísi en áður. Í skýrslunni kemur fram að vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, örari þurrkatímabilum og alvarlegri á sumum svæðum er vatn víða orðið af skornum skammti.
Að minnsta kosti 1,5 milljarður manna hefur orðið fyrir áhrifum af völdum þurrka á síðustu 20 árum og þeir hafa kostað efnahagslífið rúmlega 124 milljarða dollara. Skýrsluhöfundar benda á að venjulega sé munur á tilkynntu tjóni og raunverulegu tjóni og því verði að taka tölum sem þessum með miklum fyrirvara, þær séu mjög varfærnislega áætlaðar. Ekki má heldur gleyma því að í þessum tölum er ekki reiknað með efnahagslífi þróunarríkjanna.
Þegar talið berst að þurrkum dettur flestum í hug að þeir herji á þróunarríkin og afskekkt svæði en um fimmtungur jarðarbúa býr á svæðum sem eiga á hættu að glíma við vatnsskort. Í lok aldarinnar má reikna með að flest ríki heims muni glíma við þurrka af einhverju tagi.