Sumir vísindamenn telja að eldgosið hafi valdið vetri á allri jörðinni sem hafa varað í sex til tíu ár og að næstu 1.000 ára á eftir hafi hitastigið á jörðinni verið lægra en áður. Þetta hefur hugsanlega haft miklar afleiðingar fyrir bæði plöntu- og dýralíf og einnig fyrir forfeður okkar. Ein kenning, sem sett hefur verið fram, er að gosið hafi næstum því gert út af við forfeður okkar og aðeins hafi 10.000 til 30.000 menn verið eftir á lífi í kjölfar gossins.
Til marks um hversu öflugt gosið var þá myndaðist rúmlega 100 kílómetra langur gígur í því sem er í dag eitt dýpsta stöðuvatn heims. Gosið er það stærsta sem vitað er um og telja vísindamenn að Toba hafi spýtt um 13.000 rúmkílómetrum af grjóti, jarðvegi og ösku út frá sér. Það er 12 sinnum meira en í stærsta eldgosinu sem mannlegar heimildir eru til um en það var gosið í Tambora í Indónesíu 1815.
Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að eldgosið hafi ekki aðeins haft gríðarleg áhrif á hitastigið á jörðinni og forfeður okkar heldur hafi það einnig gert risastórt gat á ósonlagið. Ósonlagið verndar okkar fyrir hættulegum geislum sólarinnar og þetta gat hefur væntanlega orðið til þess að fjöldi dýra og manna dó af völdum þessara geisla. Rannsóknin er byggð á tölvulíkönum og ekki eru allir vísindamenn vissir um að niðurstaðan sé rétt. Anders Svensson, hjá Niels Bohr stofnuninni í Kaupmannahöfn, sagði í samtali við Danska ríkisútvarpið að hann væri ekki alveg sannfærður um niðurstöðuna en þar sem rannsóknin sé byggð upp á rannsóknum á líkönum sé erfitt að kanna hvort mistök hafi verið gerð. „Kannski var þetta svona rosalegt, kannski ekki,“ sagði hann.