Samband ríkjanna hefur verið mjög stirt og mikil spenna ríkt á milli þeirra eftir forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi á síðasta ári þar sem Aleksander Lukasjenko hélt völdum þrátt fyrir mikla andstöðu almennings en hann hefur barið hana niður harðri hendi.
Bilotaite segir að stjórnin í Hvíta-Rússlandi beiti nú blendingshernaði gegn Litháen og það að senda flóttamenn yfir landamærin sé liður í þeirri baráttu. „Þetta er vel skipulagt. Það er áætlunarflug frá Bagdad og Istanbúl til Minsk,“ sagði ráðherrann nýlega og vísaði þar til Íraka sem koma fljúgandi til Minsk, höfuðborgar Hvíta-Rússlands, og halda síðan áfram för sinni að landamærunum að Litháen.
Independent segir að það sem af er ári hafi um 160 manns, aðallega Írakar, komið til Litháen frá Hvíta-Rússlandi en það eru þrisvar sinnum fleiri en allt síðasta ár. Í síðustu viku voru níu Írakar handteknir á landamærunum þegar þeir reyndu að komast til Litháen frá Hvíta-Rússlandi.
Landamæri ríkjanna eru um 680 kílómetra löng og eru hluti af ytri landamærum ESB . Löndin hafa að undanförnu vísað stjórnarerindrekum hvors annars úr landi og í maí tóku refsiaðgerðir ESB gegn Hvíta-Rússlandi gildi en samkvæmt þeim mega þarlend flugfélög ekki fljúga í loftheldi ESB-ríkjanna né nota flugvelli þeirra. Þetta var gert eftir að flugvél frá Ryanair var neydd til að lenda í Minsk til að hægt væri að handtaka pólitískan andstæðing Lukasjenko.
Lukasjenko hefur svarað ásökunum Litháa og nýjum refsiaðgerðum með því að hóta að slaka á landamæraeftirliti hvað varðar flóttamenn og fíkniefni. Litháen hefur árum saman verið einn helsti gagnrýnandi Lukasjenko og stjórnar hans og í höfuðborginni Vilnius halda margir andstæðingar hans til en þeir eru í útlegð.