„Við viljum ekki vera í þessari stöðu í margar vikur. Við viljum gjarnan binda enda á þetta ástand og það getur ekki gengið nægilega hratt fyrir sig,“ sagði Berejiklian.
Sextíu manns hafa greinst með kórónuveiruna í Sydney á síðustu dögum eftir að borgin hafði verið smitlaus um langa hríð.
Þessi staðbundni faraldur er sá nýjasti í röð staðbundinna faraldra í ríkjum landsins á undanförnum mánuðum. Yfirvöld hafa því víða þurft að grípa til harðra sóttvarnaaðgerða. Má þar nefna að í Melbourne var gripið til slíkra aðgerða í skamman tíma í maí.
Aðgerðirnar í Sydney gilda í fjórum hverfum, þar á meðal miðhluta borgarinnar og austurhlutanum en á þessum svæðum búa um fimm milljónir manna. Fyrr í vikunni var íbúum borgarinnar bannað að yfirgefa hana til að koma í veg fyrir að veiran berist út fyrir borgina. Borgarbúar þurfa nú að nota andlitsgrímur víða, til dæmis í verslunum, almenningssamgöngufyrirtækjum og líkamsræktarstöðvum.
Faraldurinn er rakinn til ökumanns lúxusbifreiðafyrirtækis sem sá um að aka útlendum flugáhöfnum til og frá sóttvarnahótelum borgarinnar.
Áströlum hefur gengið vel í baráttunni við veiruna. Rúmlega 25 milljónir búa í landinu. Þar hafa um 30.000 smit greinst frá upphafi faraldursins og 910 hafa látist af völdum COVID-19. Víðast hvar er lífið komið í eðlilegt horf.